Haustið er að detta inn hérna hjá okkur í Kaupmannahöfn þó hitastigið hangi enn í tveggja stafa tölu. Helgin fór því að mestu í að stússast hérna heima. (lesist: Gústi tók til í geymslunni og henti 10 pokum af allskonar óþarfa dóti sem búið er að geyma allt of lengi) Við erum nefnilega enn og aftur að flytja, þó ekki langt. Bara yfir í næstu götu. Ég segi ykkur betur frá því síðar.
Ég ákvað því að nýta sunnudaginn í baka handa okkur smá góðgæti. Svona ekta sunnudagskaffi meðlæti. Ég byrjaði á því að henda í uppáhalds skúffukökuna okkar og skellti svo í ekta danskt kanilbrauð. Ég kaupi þetta stundum í bakarínu en mig hefur lengi langað að prófa að baka það sjálf. Þvílíkt og annað eins góðgæti. Þið hreinlega verðið að prófa.


Ekta danskt kanilbrauð
(f. 4-6)
Athugið að í dönskum brauðuppskriftum er nánast undantekningarlaust notað pressuger. En það er vel hægt að nota þurrger.
Deig
1 dl volg mjólk
50 gr. ger ( einn pakki þurrger)
1 msk sykur
½ tsk salt
1 egg
80 gr mjúkt smjör
300-350 gr. hveiti
Fylling
150 gr. mjúkt smjör
150 gr. púðursykur
3 tsk. kanill
Fyrir baksturinn
20 gr brætt smjör
Smjör í formið
Glassúr
150 gr. flórsykur
1 eggjahvíta
Aðferð
- Leysið gerið upp í mjólkinni í stórri skál. Blandið því næst sykri, salti og eggi saman við og hrærið vel. Bætið smjöri og hveiti saman við í litlum skömmtum á meðan þið eruð að hnoða. Hnoðið degið þar til það verður slétt og mjúkt. Látið deigið hefast í 30 mínútur.
- Á meðan deigið er að hefast er gott að hræra saman fyllinguna. Fletjið deigið út í stóran ferhyrning og smyrjið með fyllingunni. Það er alveg óhætt að smyrja vel út í hliðarnar.
- Rúllið deiginu upp í stóra pylsu og skerið í snúða (þeir mega alveg vera grófir, mínir voru helst til of þunnir). Leggjið snúðana ofan á bökunarpappír, leggið aðra örk af bökunarpappír yfir og fletjið þá út.
- Penslið snúðana með bræddu smjöri og staflið þeim upp. Leggið snúðana ofan í vel smurt brauðform og látið aftur hefast í 20 mínútur.
- Bakið brauðið við 190°C í 15-20 mínútur. (Ég bakaði mittt brauð í 18 mínútur og það hefði alveg þolað aðeins lengri tíma) Látið kólna alveg í forminu áður en þið vippið því úr.
- Hrærið glassúrinn og skreytið ( Ég var mjög rausnarleg á glassúrinn á mínu brauði)
Með þessu drukkum við ískalda mjólk og gott kaffi.
Værsgo!